Gísli Elíasson hefur verið ráðinn sölu- og markaðsstjóri Tactica ehf. en um er að ræða nýtt starf innan fyrirtækisins. Greint er frá ráðningu hans í fréttatilkynningu.
Gísli kemur til Tactica frá Orkusölunni þar sem hann starfaði sem viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði raforku, þar áður starfaði hann sem sölu- og markaðsstjóri fyrirtækjasviðs Rún heildverslunnar.
Hann er menntaður sölu, markaðs og rekstrarfræðingur og tónlistarmaður en hann hefur starfað á fyrirtækjamarkaði við sölu og markaðsmál síðan 1999.
„Við erum mjög spenntir yfir að fá jafn öflugan sölu og markaðsmann eins og Gísla til starfa hjá okkur. Það er mikill fengur í honum og mun hann spila lykilhlutverk í kynningu okkar lausna til bæði nýrra og núverandi viðskiptavina,“ segir Ríkharður Brynjólfsson framkvæmdastjóri og annar eigenda Tactica.
Um Tactica
Tactica ehf. er upplýsingatækni fyrirtæki með höfuðstöðvar í Hafnarfirði og sérhæfir fyrirtækið sig í heildstæðri tækni og tölvuþjónustu fyrir fyrirtæki og rekstraraðila. Innan Tactica má finna sérfræðinga í kerfisrekstri, hugbúnaðarlausnum, hýsingar lausnum og annarri þjónustu við vefkerfi og vefverslanir.
Hjá Tactica starfa yfir 20 manns, þar af 11 manna þróunarteymi Integrator samþættingarlausnar félagsins, sem samþættir viðskiptahugbúnað og vefverslanir.