Elísabet Indra Ragnarsdóttir hefur tekið við sem verkefnastjóri dagskrárgerðar í Hörpu og mun hafa yfirumsjón með viðburðum og fjölskyldudagskrá á vegum Hörpu. Auk þess mun hún sjá um samstarfsverkefni og ókeypis tónlistarviðburði í opnum rýmum hússins.
Hún hefur áður starfað við verkefna- og viðburðastjórnun á sviði menningarmála hjá Kópavogsbæ, Listaháskóla Íslands, Mengi, Listahátíð í Reykjavík og Reykjavík Midsummer Music.
Elísabet Indra starfaði einnig um árabil sem dagskrárgerðarmaður hjá Rás 1 þar sem hún stýrði menningarþáttum af ólíku tagi. Hún hefur tekið að sér fjölbreytt verkefni á sviði tónlistarumfjöllunar og miðlunar, meðal annars fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands og gegnt trúnaðarstörfum fyrir STEF, Sumartónleika í Skálholti, Tónskáldafélag Íslands, RÚV og Hörpu.
„Ég tek við starfinu full af tilhlökkun. Framundan eru virkilega spennandi viðburðir og verkefni í Hörpu sem lúta að innlendri grasrót og tilraunamennsku, alþjóðlegum stórviðburðum og viðburðum sem spanna allt litróf samfélagsins,” segir Elísabet Indra.
Hún er jafnframt með MA í tónlistarfræðum frá Goldsmiths College í London, BA í íslensku frá HÍ og fiðlukennarapróf frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hún hefur lokið diplómu í heimilda- og fléttuþáttagerð fyrir útvarp og stundað nám í menningarmiðlun við HÍ ásamt því að hafa starfað sem viðburða- og verkefnastjóri menningarmála hjá Kópavogsbæ frá árinu 2020.