Ólafur Karl Sigurðarson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Marel Fish. Hann tekur við starfinu af Guðbjörgu Heiðu Guðmundsdóttur, en tilkynnt var um það rétt áðan að hún hafi verið ráðin forstjóri Varðar.

Í tilkynningu þar sem greint er frá ráðningu Ólafs segir að hann muni í nýju starfi „bera ábyrgð á stefnu Marel Fish með það að leiðarljósi að hraða nýsköpunar- og sjálfvirknivegferð Marel enn frekar og efla stöðu Marel sem leiðandi fyrirtækis á heimsvísu í tækjum, hugbúnaði og lausnum fyrir fiskiðnaðinn.“

Ólafur Karl hefur starfað hjá Marel frá árinu 2015 þegar hann hóf störf sem vörustjóri. Í gegnum árin hefur hann gegnt mismunandi störfum hjá Marel í þjónustu og vöruþróun, nú síðast forstöðumaður nýsköpunar hjá Marel Fish. Áður starfaði Ólafur Karl meðal annars á fjármálamarkaði. Hann er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.

„Það gleður mig að fá Ólaf í hlutverk framkvæmdastjóra Marel Fish. Ólafur hefur sýnt framúrskarandi leiðtogahæfileika hjá Marel og vaxið með hverri áskorun. Ég er þess fullviss að hann verði farsæll í þeim verkefnum sem framundan eru. Um leið vil ég þakka Guðbjörgu innilega fyrir verðmætt framlag í þágu Marel í gegnum árin og óska henni alls hins besta á nýjum vettvangi,” er haft eftir Árni Sigurðssyni, Chief Business Officer og aðstoðarforstjóra Marels.