Ólafur Thors hefur verið ráðinn markaðsstjóri Bónus en hann hefur yfir áratuga reynslu í markaðsmálum, stefnumótun og stafrænum lausnum. Ólafur hefur meðal annars lokið BA-prófi í lögfræði frá Háskóla Íslands.

Eftir stopp hjá Plain Vanilla hóf hann störf í markaðsdeild Íslandsbanka þar sem hann starfaði í tæp tíu ár.

Þar starfaði hann sem deildarstjóri stafrænnar upplifunar þar sem hann leiddi stafræna markaðssetningu bankans, stýrði samfélagsmiðlum og tók þátt í að móta stefnu fyrir stafræna upplifun viðskiptavina.

„Ég hlakka til að vinna með þessu öfluga vörumerki. Bónus hefur haldið lægsta mögulega verði fyrir viðskiptavini eins og mig í áratugi og það er bæði skemmtilegt og mikilvægt verkefni að styðja við þau skilaboð. Ég held líka að guli og bleiki liturinn klæði mig einstaklega vel,“ segir Ólafur Thors, nýr markaðsstjóri Bónus.

Ólafur hefur þar að auki skrifað handrit fyrir sjónvarpsauglýsingar og auglýsingaherferðir.

„Við erum mjög heppin að fá mann eins og Ólaf í okkar frábæra teymi. Ólafur býr yfir mikilli reynslu á sviði samskipta- og markaðsmála og kemur til með að styrkja samskipti okkar við neytendur enn frekar,“ segir Björgvin Víkingsson, framkvæmdastjóri Bónus.