Ólöf Skaftadóttir, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins og síðar samskiptastjóri Samtaka atvinnulífsins, hefur gengið til liðs við ráðgjafarfyrirtækið Athygli. Þar mun hún sinna eigin ráðgjöf og verkefnum.
Ólöf hefur reynslu á sviði fjölmiðla, ráðgjafar og samskipta og heldur úti hlaðvarpinu, Komið gott, ásamt Kristínu Gunnarsdóttur.
„Athygli er rótgróið fyrirtæki á sviði samskipta sem ætlar sér að stækka á næstunni. Ég er spennt fyrir verkefnunum sem framundan eru en ekki síður fyrir því að fá að kynnast betur því frábæra fagfólki sem þar starfar,” segir Ólöf.
Ráðgjafarfyrirtækið Athygli var stofnað árið 1989 og er eitt elsta fyrirtækið á sínu sviði á Íslandi. Athygli sérhæfir sig í stjórnendaráðgjöf, samskiptaráðgjöf, upplýsingamiðlun og stefnumótun.
Félagið er samstarfsaðili norska ráðgjafafyrirtækisins Geelmuydeen Kiese sem er með skrifstofur í Osló, Kaupmannahöfn og Stokkhólmi
„Ólöf býr yfir mikilli reynslu á mörgum ólíkum sviðum og býr yfir ótrúlegu tengslaneti. Við hjá Athygli erum mjög spennt fyrir því að vinna nánar með henni. Ég þekki Ólöfu vel úr fjölmiðlum og í gegnum annað samstarf,“ segir Kolbeinn Marteinsson, framkvæmdastjóri Athygli.