Tilnefningarnefnd Kviku banka hefur lagt til að Páll Harðarson, fyrrverandi forstjóri Kauphallarinnar, verði kjörinn í stjórn bankans á aðalfundi hans 26. mars næstkomandi. Þetta kemur fram í skýrslu tilnefningarnefndar Kviku.

Breyting varð á stjórn Kviku á liðnu starfsári þegar Guðmundur Þórðarson vék úr stjórninni til að taka við nýrri stöðu framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar hjá bankanum. Sigurgeir Guðlaugsson, sem hafði setið sem varamaður, kom inn í aðalstjórn í lok ágúst 2024.

Sigurgeir gefur ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu en aðrir sitjandi stjórnarmenn sækjast eftir endurkjöri.

Tilnefningarnefndinni bárust ellefu framboð til aðalstjórnar. Fimm af sex frambjóðendum sem ekki hlutu tilnefningu frá tilnefningarnefnd drógu framboð sín til baka þegar tilkynnt var að þau hlytu ekki tilnefningu.

Nefndin tilnefnir eftirfarandi einstaklinga:

  • Sigurður Hannesson, stjórnarformaður
  • Guðjón Reynisson, stjórnarmaður
  • Helga Kristín Auðunsdóttir, stjórnarmaður
  • Ingunn Svala Leifsdóttir, stjórnarmaður
  • Páll Harðarson, tilnefndur í stjórn

Auk þeirra sem tilnefningarnefnd tilnefnir hefur Áslaug Eva Björnsdóttir lýst vilja sínum til að vera í framboði til stjórnar á aðalfundinum.

Páll Harðarson starfaði sem fjármálastjóri evrópskra markaða hjá Nasdaq 2019-2023. Frá 2023-2024 var hann fjármálastjóri markaðsviðskipta hjá Nasdaq í 18 kauphöllum í Ameríku og Evrópu. Áður starfaði hann sem forstjóri Kauphallar Íslands (Nasdaq Iceland) frá 2011 til 2019, og aðstoðarforstjóri og forstöðumaður rekstrarsviðs frá 2002-2011.

Páll var í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu í byrjun árs þar sem hann ræddi m.a. tíma sinn hjá Nasdaq og tækifæri fyrir íslenska hlutabréfamarkaðinn.

Í tilnefningarnefnd Kviku starfsárið 2024-2025 sitja Helga Melkorka Óttarsdóttir, Jóhann Ásgeir Baldurs og Jakobína H. Árnadóttir. Formaður nefndarinnar er Jakobína H. Árnadóttir.