Íslenski hjólaframleiðandinn Lauf Cycling hefur ráðið tvo nýja starfsmenn til að sinna aðgerðagreiningu annars vegar og gæða- og þjónustumálum hins vegar.
Pétur Jökull Þorvaldsson er með B.Sc. í hugbúnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Hann hefur unnið hjá Kviku banka frá fyrri hluta árs 2020 sem gagnasérfræðingur í áhættustýringu. Samhliða starfi sínu hjá Kviku kenndi Pétur stoðtíma í Háskólanum í Reykjavík. Pétur hefur síðustu ár verið virkur bæði í götu- og fjallahjólreiðum.
Óskar Ágúst Albertsson er með B.Sc. í hátækniverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Óskar hefur starfað við vélahönnun og verkefnastjórnun tengt sjávarútveginum, m.a. hjá Völku, Micro og Mørenot Fishery. Óskar hefur mikinn áhuga á hjólreiðum og annarri útivist eins og sannur Vestfirðingur.
„Það er mikill fengur fyrir okkur hjá Lauf að fá Pétur og Óskar til liðs við okkur. Framundan eru gríðarlegar áskoranir og tækifæri í að skala upp starfsemi Lauf samhliða opnun á lager- og dreifimiðstöð í Bandaríkjunum en Bandaríkin er langsamlega stærsti markaður félagsins,“ er haft eftir Hallgrími Björnssyni, fjármála- og rekstrarstjóra Lauf Cycling.