Pétur Kristinn Guðmarsson og Sigurður Óli Sigurðarson hafa gengið til liðs við Markaðsviðskipti Landsbankans. Pétur starfar sem miðlari en Sigurður Óli sem hlutabréfagreinandi. Greint er frá ráðningu þeirra í fréttatilkynningu.

Pétur hefur síðustu ár starfað hjá Dohop, ýmist sem fjármála-, rekstrar- eða mannauðsstjóri. Áður var hann í tíu ár hjá Arion banka og Kaupþingi, m.a. í fyrirtækjaráðgjöf og við eigin viðskipti bankans. Pétur er með B.Sc.-gráðu í viðskiptafræði frá Coastal Carolina University í Suður-Karólínu, M.Sc.-gráðu í fjárfestingastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Sigurður Óli hefur frá árinu 2005 starfað við fyrirtækjaráðgjöf hjá PwC og verið sviðsstjóri þar síðustu árin. Hann er því margreyndur í greiningum á fyrirtækjum og gerð verðmata. Sigurður Óli er með B.Sc.-gráðu í viðskiptafræði frá Coastal Carolina University í Suður-Karólínu og M.Sc.-gráðu í fjárfestingastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík.