Ragnar Adolf Árnason hefur verið ráðinn tæknistjóri Moodup. Hann mun hafa umsjón með vöruþróun, tæknilegri aðstoð og uppbyggingu stafrænna innviða fyrirtækisins.

Hann hefur undanfarin sex ár starfað við hugbúnaðarþróun hjá Gangverki þar sem meginverkefni hans var vöruþróun fyrir alþjóðlega uppboðsfyrirtækið Sotheby's. Áður starfaði Ragnar hjá TM Software og sinnti kennslu við Háskólann í Reykjavík. Ragnar er með BS-próf í tölvunarfræði frá sama skóla.

„Við erum himinlifandi með að fá Ragnar til liðs við okkur. Hann byrjar af krafti og hefur nú þegar aukið afkastagetu okkar þegar kemur að vöruþróun og innri uppbyggingu. Ragnar mun gegna lykilhlutverki við að gera okkur kleift að ráða við núverandi og áframhaldandi vöxt,“ segir Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Moodup.

Moodup er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki sem var stofnað árið 2021 og mælir starfsánægju fyrir vinnustaði með „púlsmælingum“, stuttum könnunum sem sendar eru út reglulega til starfsfólks. Um 100 íslenskir vinnustaðir, 2.500 stjórnendur og 35.000 starfsmenn nýta sér þjónustu Moodup í dag.