FESTI hf., eignarhaldsfélag sem í dag rekur fimm rekstrarfélög; N1, Krónuna, ELKO, Bakkann vöruhótel og Festi fasteignir, hefur nýverið ráðið tvo nýja starfsmenn. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Ragnheiður Ásgrímsdóttir hefur hafið störf sem forstöðumaður Reikningshalds hjá Festi hf. Ragnheiður starfaði áður hjá Össuri hf um 19 ára skeið og var þá forstöðumaður á fjármálasviði fyrirtækisins. Ragnheiður er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og er með MPM gráðu í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík.

Helgi Þór Logason hefur hafið störf sem aðstoðarmaður framkvæmdastjórnar Festi hf. Helgi Þór starfaði í bankakerfinu um langt árabil en síðustu ár var hann fjármálastjóri Fjarðarlax og framkvæmdastjóri Kex Hostel. Helgi Þór er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og er með MBA gráðu frá McDonough School of Business (Georgetown University).