Reynir Stefánsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Dekkjahallarinnar en hann hefur víðtæka reynslu af stjórnun, sölu, markaðsmálum, rekstri fyrirtækja og hefur leitt fjölbreytt verkefni í mismunandi atvinnugreinum.

Hann er með MBA-gráðu frá Háskóla Íslands og diplómu í viðskiptafræðum frá Háskólanum á Akureyri.

Reynir var áður framkvæmdastjóri hjá OK og hefur gegnt stjórnunarstörfum undanfarna áratugi. Þá hefur hann tengsl við Norðurland, þar sem hann bjó um tíma og starfaði sem framkvæmdastjóri Símalands og rekstrarstjóri hjá EJS á Akureyri.

„Ég er mjög spenntur að ganga til liðs við Dekkjahöllina og hlakka til að vinna með öflugu teymi starfsfólks. Fyrirtækið hefur langa sögu og góð viðskiptasambönd, auk þess að vera hluti af spennandi samstæðu sem leggur mikla áherslu á framúrskarandi þjónustu og gæði,“ segir Reynir.

Dekkjahöllin var stofnuð árið 1984 og hefur byggt upp sterka stöðu í dekkjaþjónustu á Íslandi. Fyrirtækið er meðal annars umboðsaðili Continental, Yokohama og Falken.

„Við erum afar ánægð að fá Reyni til að stýra félaginu í samvinnu við mjög öflugan hóp starfsmanna sem hafa mikla reynslu og eru þekktir fyrir framúrskarandi þjónustu,“ segir Jón Trausti Ólafsson, forstjóri Vekra.