Tveir nýir forstöðumenn hafa tekið til starfa á hjá VÍS. Það eru þeir Rúnar Örn Ágústsson og Hafsteinn Esekíel Hafsteinsson. Báðir hafa hafið störf hjá félaginu.

Rúnar Örn hefur verið ráðinn forstöðumaður stofnstýringar og verðlagningar þar sem hann mun bera ábyrgð á verðlagningu, viðskiptakjörum og afkomu af tryggingum félagsins. Hann sér einnig um áhættumat fyrirtækja og endurnýjun á tryggingum einstaklinga og fyrirtækja. Rúnar hóf störf hjá VÍS árið 2019 sem sérfræðingur í vörustjórnun, stofnstýringu og áhættumati.

Áður starfaði hann hjá Mannviti við verkefnastjórn þar sem megináherslan var á kostnaðar-og verkáætlanir sem og tölulegar greiningar. Hann er með meistaragráðu í byggingaverkfræði frá Danska tækniháskólanum og B.Sc.-gráðu í umhverfis-og byggingaverkfræði frá Háskóla Íslands.

Hafsteinn Esekíel hefur verið ráðinn sem forstöðumaður einstaklingsviðskipta hjá VÍS. Hann mun bera ábyrgð á því að efla og samræma sókn á einstaklingsmarkaði um allt land. Áður starfaði hann sem forstöðumaður einstaklingsráðgjafar hjá Sjóvá.

Hann hefur einnig starfað sem flugliði hjá Icelandair og sem rekstrarstjóri hjá Bestseller á Íslandi. Hann er með BSc.-gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík.

„Ég fagna komu Rúnars og Hafsteins í öflugt teymi sóknar og sölu hjá VÍS. Tryggingar eru mikilvægar í lífi okkar allra, því rétt vernd getur skipt öllu máli. Við viljum því tryggja að viðskiptavinir okkar séu rétt tryggðir svo við getum verið traust bakland í óvissu lífsins. Ég trúi því að reynsla þeirra og þekking muni hjálpi okkar enn frekar að ná metnaðarfullum markmiðum okkar,“ segir Ingibjörg Ásdís Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá VÍS.