Sæmundur Sæmundsson hefur ákveðið að láta af störfum sem framkvæmdastjóri verkfræðistofunnar Eflu eftir fjögurra ára starf. Greint er frá þessu á vef félagsins.

„Hann hefur leitt fyrirtækið til mikils vaxtar eins og uppgjör fyrirtækisins undanfarin ár sýna svart á hvítu,“ segir í tilkynningunni.

„Sæmundur hefur talið nauðsynlegt að ráðast í breytingar á skipuriti og stjórnun innan samstæðunnar og taldi rétt, í ljósi ólíkrar sýnar á þær breytingar, að stíga til hliðar.“

Sæmundur var ráðinn framkvæmdastjóri Eflu í mars 2021. Hann hafði áður starfað sem forstjóri Borgunar og þar áður framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Sjóvá á árunum 2011-2017. Þar áður var hann forstjóri upplýsingatæknifyrirtækisins Teris 1998-2011.

Í tilkynningunni er Sæmundi þakkað fyrir vel unnin störf og honum óskað velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Rekstrartekjur Eflu námu 12,3 milljörðum króna í fyrra sem samsvarar 11,4% aukningu frá fyrra ári. Félagið hagnaðist um 1,1 milljarð króna árið 2024.