Þrír starfsmenn stafrænu auglýsingastofunnar SAHARA hafa gengið til liðs við stjórnendateymi og eigendahóp fyrirtækisins sem meðeigendur, eða „partners“. Það eru þau Eva Þorsteinsdóttir viðskiptastjóri, Ágúst Örn Ágústsson framleiðslustjóri og Jón Gísli Ström, stafrænn markaðsstjóri.

SAHARA sérhæfir sig í stafrænni markaðssetningu og framleiðslu en hjá fyrirtækinu starfa rúmlega 30 manns, bæði á Íslandi og í Orlando í Bandaríkjunum.

Eva er menntuð í viðskipta- og markaðsfræði og kom til starfa hjá SAHARA fyrir tæpum sjö árum sem framleiðandi. Hún gegndi síðar starfi framleiðslustjóra en hefur nú í nokkur ár verið viðskiptastjóri í viðamiklum innlendum og erlendum verkefnum.

Hún segir að það sé frábært að vera orðin hluti af SAHARA og að hafa upplifað vöxt fyrirtækisins á undanförnum árum. „Ég er mjög spennt fyrir komandi tímum með öllu þessu frábæra samstarfsfólki sem hvert og eitt býr yfir ótrúlegri þekkingu og afburða fagmennsku.“

Ágúst Örn lærði handritagerð og leikstjórn við Kvikmyndaskóla Íslands og hefur starfað hjá fyrirtækinu í rúm sex ár. Hann hóf sinn feril hjá SAHARA sem tökumaður og klippari en tók við stöðu framleiðslustjóra fyrir rúmum tveimur árum. „Ég er bæði stoltur og glaður á þessum tímamótum og ég hlakka mikið til að fá að taka þátt í áframhaldandi vexti SAHARA á komandi misserum.“

Jón Gísli Ström nam viðskiptafræði við Háskóla Íslands og stundaði síðan framhaldsnám í Bandaríkjunum samhliða því að spila fótbolta. Hann starfaði sem markaðsstjóri hjá Ormsson áður en hann réðst til SAHARA fyrir þremur árum síðan. „Við erum að innleiða nýjar stefnur og strauma til að gera fyrirtækið enn betur í stakk búið til að takast á við allar þær áskoranir sem fylgja sífellt örari þróun í hinum stafræna heimi.“

Sigurður Svansson framkvæmdastjóri SAHARA segist ánægður með að fá þremenningana til liðs við eigendahópinn.

„Þau hafa öll gegnt lykilhlutverkum og búa yfir mikilli reynslu og þekkingu sem er afar mikilvæg fyrir fyrirtækið. Nú fá þau tækifæri til að vera virkir þátttakendur í uppbyggingu fyrirtækisins og koma að stefnumótun þess til framtíðar,“ segir Sigurður.