Salóme Guðmundsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Ísorku en hún tekur við starfinu af Sigurði Ástgeirssyni stofnanda fyrirtækisins.

Ísorka hóf form­lega starf­semi í árs­lok 2016 og var fyrst fyrir­tækja á Ís­landi til að hefja gjald­töku fyrir hleðslu á hleðslu­stöðvum.

Fyrirtækið er að stærstum hluta í eigu EGG ehf., sem er meðal annars móður­fé­lag bíla­um­boðsins BL og bílaleigu Hertz á Íslandi. EGG er í jafnri eigu Ernu Gísla­dóttur og Jóns Þórs Gunnars­sonar.

„Við í stjórn Ísorku erum gríðarlega ánægð með að fá Salóme til liðs við okkur. Hún hefur viðtæka reynslu sem mun styrkja teymið okkar enn frekar og við hlökkum til að vinna með henni að þeim spennandi verkefnum sem eru framundan,“ segir Íris Ansnes, stjórnarformaður Ísorku.

Salóme hefur starfað í hringiðu nýsköpunar og tækni frá árinu 2014, lengst af sem framkvæmdastjóri Klak. Árið 2021 tók hún sæti í stjórn hjá Eyri Ventures og sinnti ýmsum verkefnum fyrir sjóðinn og félög í eignasafni hans. Hún starfaði þá sem forstöðumaður í viðskiptaþróun hjá PayAnalytics og síðar sem framkvæmdastjóri rekstrar hjá Justikal.

„Ísorka er frumkvöðull á sviði hleðslulausna og hefur náð mikilvægum árangri á undanförnum árum á ört vaxandi markaði þar sem ríkir mikil samkeppni. Það er spennandi áskorun að fá að leiða fyrirtækið inn í næsta vaxtarfasa með metnaðarfullu teymi og traustum samstarfsaðilum þar sem framúrskarandi þjónusta við viðskiptavini, nýsköpun og sjálfbærni eru í forgrunni,“ segir Salóme.

Hún hefur jafnframt starfað sem leiðbeinandi við MBA nám Háskólans í Reykjavík frá árinu 2021 þar sem hún hefur umsjón með lokaverkefni MBA nema sem unnið er í samstarfi við MIT háskóla.

Salóme var einnig forstöðumaður Opna háskólans í HR á árunum 2011-2014. Salóme er með BSc próf í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og lauk AMP stjórnendanámi við IESE í Barcelona árið 2019.

Hún hefur víðtæka reynslu af ýmsum nefndar- og stjórnarstörfum í íslensku atvinnulífi og situr í stjórn Viðskiptaráðs Íslands, Hönnunarmars og sem varamaður í stjórn Fossa fjárfestingabanka. Salóme er jafnframt stofnandi og formaður félags Kvenna í stjórnum.