Salóme Guðmundsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri rekstrar hjá Justikal og gengur jafnframt inn í stofnendateymi félagsins.
„Salóme mun leiða sókn og stefnu fyrirtækisins inn á erlenda markaði og bera ábyrgð á daglegum rekstri og uppbyggingu starfseminnar. Salóme mun hefja störf nú um mánaðamótin,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Justikal gerir lögmönnum og öðrum aðilum m. a. kleift að senda gögn rafrænt til dómstóla og er hannað til að hraða meðferð mála, gera þau skilvirkari og aðgengilegri fyrir málsaðila.
Salóme starfaði áður sem forstöðumaður í viðskiptaþróun hjá PayAnalytics. Hún hefur frá árinu 2021 einnig starfað sem stjórnarmaður og ráðgjafi hjá Eyri Venture Managment og leiðbeinandi við MBA-nám Háskólans í Reykjavík.
„Spennandi áskorun að ganga til liðs við Justikal“
Hún starfaði sem framkvæmdastjóri Icelandic Startups árin 2014 til 2021. Þar áður var hún forstöðumaður Opna háskólans í HR. Salóme er með BSc próf í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og lauk AMP stjórnendanámi við IESE í Barcelona árið 2019. Salóme hefur víðtæka reynslu af nefndar- og stjórnarstörfum í íslensku atvinnulífi og situr m. a. í stjórn Sýnar hf., Viðskiptaráðs Íslands og Eyrir Ventures ehf.
„Ráðning Salóme er liður í þeirri vegferð að styrkja stjórnendateymi Justikal og undirbúa félagið fyrir sókn á erlenda markaði,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.
„Það er spennandi áskorun að ganga til liðs við Justikal á þessum tímapunkti í vexti félagsins. Fyrirtækið hefur náð góðri fótfestu á Íslandi og hefur alla burði til þess að vaxa hratt erlendis. Fram undan eru mikil tækifæri til sóknar og við erum með metnaðarfull plön. Ég hlakka til að stíga af krafti inn í nýtt hlutverk,“ segir Salóme.