Salome Hallfreðsdóttir hefur gengið til liðs við loftslagsfyrirtækið Transition Labs og verður framkvæmdastjóri nýstofnaðs dótturfélags þess sem nefnist Röst sjávarrannsóknasetur ehf.

Hún hefur mikla reynslu á sviði umhverfis-, sjálfbærni- og loftslagsmála en Salome kemur til Transition Labs frá matvælaráðuneytinu þar sem hún var sérfræðingur á skrifstofu sjálfbærni.

Hlutverk Salome verður að byggja upp starfsemi Rastar í samstarfi við Carbon to Sea Initiative sem er óhagnaðardrifin bandarísk sjálfseignarstofnun. Markmiðið er að efla alþjóðlegar rannsóknir og þekkingu á hlutverki hafsins við að fanga og binda gróðurhúsalofttegundir úr andrúmsloftinu.

„Ég er afar spennt fyrir því að fá að leiða þessa vinnu. Hafið gegnir veigamiklu hlutverki þegar kemur að loftslagsmálum. Það dempar áhrif loftslagsbreytinga en verður jafnframt fyrir miklum áhrifum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda,” segir Salome.

Áður hefur Salome starfað sem sérfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, ráðgjafi í umhverfismálum hjá Environice og sem verkefnastjóri og síðar framkvæmdastjóri Landverndar.

„Við erum spennt fyrir því að Ísland verði mögulega lykilaðili í að byggja upp þekkingu á þessu sviði og bjóðum Salome innilega velkomna í hópinn. Yfirgripsmikil þekking hennar og reynsla mun skipta sköpum í komandi vegferð,“ segir Irene Polnyi, stjórnarformaður Rastar sjávarrannsóknaseturs.