Sandra Ósk Sigurðardóttir hefur tekið við stöðu vefstjóra hjá Póstinum. Hún mun hafa yfirumsjón með stefnu vefþróunnar og leiða verkefni sem tengjast stafrænni upplifun og þjónustu við viðskiptavini. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Sandra kemur til Póstsins frá Play þar sem hún gengdi stöðu forstöðumanns stafrænnar þróunnar. Áður starfaði hún sem vefstjóri Wow air og Primera Air. Sandra er með B.Sc. í viðskiptafræði og hefur víðtæka reynslu af stefnumótun og stýringu stafrænna verkefna.

Sandra Ósk Sigurðardóttir, nýr vefstjóri hjá Póstinum:

„Það hefur verið gaman að fylgjast með Póstinum síðastliðin ár bregðast við breyttu viðskiptaumhverfi, innkomu samkeppnisaðila og áskorunum í COVID til að mæta þörfum viðskiptavina í nýju umhverfi. Ég hlakka til að taka þátt í áframhaldandi framþróun þar sem áhersla er lögð á upplifun viðskiptavina. Það eru stór tækifæri til aðgerða til að bæta við nýjum þjónustum og besta þær sem fyrir eru komnar. Ég hef sterka sýn á að viðskiptavinurinn eigi að vera þungamiðjan í allri þróun með einfaldleika og gagnsæi að leiðarljósi. Og ekki skemmir fyrir þegar manni tekst að skapa litlar, óvæntar ánægjustundir sem létta fólki lífið. Þetta passar vel við framtíðarsýn og gildi Póstsins.“
Ósk Heiða Sveinsdóttir, forstöðumaður þjónustu og markaða hjá Póstinum:

,,Reynslan og þekkingin sem Sandra kemur með inn í Póstinn er gríðarlega verðmæt. Að vinna með svona reynslumiklum leiðtoga líkt og Sandra er, með hennar sterku sýn á vefstjórn og stafræna upplifun og hæfnina til að nýta á strategískan hátt eru forréttindi. Sandra mun gegna lykilhlutverki í áframhaldandi vegferð Póstsins hvað varðar uppbyggingu stafrænna lausna og þjónustu. Hún kemur sterk inn í þau stóru verkefni sem framundan eru, mikilvægur liðsstyrkur á spennandi tímum.“