Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastýra DRIFTAR EA á Akureyri en félagið hefur það að markmiði að byggja upp frumkvöðla- og nýsköpunarstarf á Eyjafjarðarsvæðinu.

Hún hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu en síðustu þrjú ár var hún framkvæmdastýra nýsköpunar- og orkuverkefnisins EIMS. Þá hefur hún undanfarin ár starfað með ýmsum fjárfestum, bæði sem frumkvöðull og fjárfestir.

Undir hennar forystu var stofnuð grasrótarhreyfingin Norðanátt, sem er hreyfiafl nýsköpunar. Einnig hefur Sesselja Ingibjörg starfað sem ráðgjafi stjórnvalda varðandi nýsköpun.

„Með stofnun DRIFTAR EA er að hefjast ný sókn í atvinnumálum á Eyjafjarðarsvæðinu og táknrænt er að starfsemin verður í rótgrónum húsakynnum í hjarta Akureyrar, þar sem frumkvöðlar og fyrirtæki fá vel búna aðstöðu til að vinna hugmyndum sínum framgang innan og utan landsteinanna,“ segir Sesselja.

Stofnendur DRIFTAR EA eru Kristján Vilhelmsson og Þorsteinn Már Baldvinsson en lögð verður áhersla á verkefni á sviði matvælaframleiðslu, heilbrigðis- og lækningavöruframleiðslu, líftækni, hugbúnaðarlausna fyrir sjávarútveg og grænna lausna.

Sesselja Ingibjörg er með BA-gráðu í lögfræði, sveinspróf í framreiðslu og hefur lokið MBA-námi í viðskiptum og stjórnun.