Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir hefur verið ráðin nýr forstjóri Nóa Síríusar. Þá mun Þóra Gréta Þórisdóttir, sem verið hefur tímabundið starfandi forstjóri, hverfa aftur til fyrri starfa sem fjármálastjóri Nóa Síríusar.
Sigríður Hrefna er með embættispróf í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands og með MBA gráðu frá Copenhagen Business School. Hún hefur víðtæka leiðtogareynslu í ýmsum atvinnugreinum bæði hérlendis og erlendis.
„Nói Siríus er öflugt og rótgróið félag sem hefur þróast með þjóðinni frá því snemma á síðustu öld. Stefna fyrirtækisins er metnaðarfull og hefur það yfir fjölmörgum sterkum vörumerkjum að ráða. Ég hlakka til að leiða fyrirtækið áfram til framtíðar með þeim framúrskarandi mannauði sem hjá því starfar,“ segir Sigríður.
Sigríður kemur frá Íslandsbanka þar sem hún var framkvæmdastjóri einstaklingssviðs frá 2017 og var þar m.a. lykilmaður í að byggja upp stafræna vegferð bankans. Áður var hún framkvæmdastjóri smásölusviðs Olís þar sem hún leiddi mikla umbreytingarvinnu fyrirtækisins á smásölumarkaði.
„Ég er mjög ánægður með að hafa fengið Sigríði Hrefnu sem forstjóra í okkar öfluga stjórnendateymi, til að leiða áframhaldandi vöxt Nóa Síríusar. Starfsreynsla hennar og persónulegir eiginleikar falla einstaklega vel að þeirri spennandi vegferð sem fram undan er hjá félaginu. Við hlökkum til að vinna með henni ásamt framúrskarandi starfsfólki félagsins í að móta saman framtíð Nóa Síríusar,“ segir Rolf Arnljot Strøm, stjórnarformaður Nói Síríus.