Sigsteinn Grétarsson hefur verið ráðinn sem forstjóri Skagans 3X og Baader Íslands. Sigsteinn lét af störfum sem forstjóri Arctic Green Energy fyrr í ár en hann hafði gegnt þeirri stöðu frá árinu 2016.
„Baader styrkir áfram teymið á Íslandi með ráðningu á Sigsteini Grétarssyni í stöðu forstjóra. Sigsteinn er margreyndur stjórnandi og leiðtogi með margþætta reynslu af alþjóðaviðskiptum og matvælatækni,“ segir í fréttatilkynningu.
Ráðningin er sögð liður í að styrkja frekar stöðuna í íslenska hluta fyrirtækisins sem samanstendur af Baader Íslandi og Skaganum 3X. Haft er eftir Robert Focke forstjóra BAADER Fish í Þýskalandi að þetta sé mikilvæg ráðning til að styrkja íslenska stjórnendateymið og að ráðningin sé lykil skref í áætlunum um að vera óumdeildur leiðtogi í heildarkerfum fyrir mismunandi tegundir fisks.
Sjá einnig: Baader eignast allt hlutafé Skagans 3X
Ingólfur Árnason, stofnandi Skagans 3X, lét af störfum sem forstjóri félagsins í lok síðasta árs og hefur Guðjón M. Ólafsson gegnt stöðunni til bráðabirgða. Ingólfur seldi eftirstandandi 40% hlut sinn í félaginu í byrjun þessa árs til Baader sem á nú Skagann 3X að fullu.
Sigsteinn Grétarsson:
„BAADER hefur verið hornsteinn í Íslenskum sjávarútvegi í yfir 60 ár og hefur við góðan orðstír leitt sjálfvirkni í tækjabúnaði. Verkefnin halda áfram og við ætlum okkur að vera sá aðili sem er leiðandi í góðu samstarfi við íslenskan sjávarútveg.“