Peel auglýsingastofa hefur ráðið Sigtrygg Magnason en hann hefur síðustu ár starfað sem aðstoðarmaður Sigurðar Inga Jóhannssonar í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, innviðaráðuneytinu og nú síðast í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Hann mun hefja störf á næstu vikum en Sigtryggur er þó ekki ókunnugur auglýsingabransanum.
Hann starfaði í auglýsingum frá 2005 til 2018, fyrst hjá Íslensku auglýsingastofunni, þar sem hann gegndi meðal annars stöðu sköpunarstjóra, og síðar hjá Hvíta húsinu. Samhliða auglýsingum hefur Sigtryggur einnig unnið í leikhúsi og hafa leikrit hans verið sett upp og gefin út hér á landi, í Bandaríkjunum og Þýskalandi.
„Það er gott að koma aftur heim í auglýsingaland. Peel hefur verið leiðandi í skapandi auglýsingagerð og er sú auglýsingastofa sem hefur unnið flest alþjóðleg verðlaun á síðustu árum. Ég hlakka til að taka þátt í því verkefni, leggja mitt af mörkum í auglýsingagerðinni og jafnframt hjálpa til við að stækka og þróa vöruborð Peel með fjölbreyttri ráðgjöf,“ segir Sigtryggur.
Peel segist vera í sókn og að þessi ráðning marki fyrsta skrefið í því að auka þjónustu og breikka vöruframboð til viðskiptavina.
„Við erum afar spennt að fá Sigtrygg til liðs við Peel. Hann býr yfir einstökum reynslubanka úr bæði auglýsingum og skapandi greinum, sem mun styrkja okkur enn frekar. Sigtryggur mun leiða hugmyndadeild Peel í hlutverki sköpunarstjóra og við hlökkum til að sjá hann setja sitt mark á verkefnin okkar. Með þessum skrefum heldur Peel áfram að byggja upp auglýsingastofu framtíðarinnar – þar sem sköpun, stefnumótun og hugrekki mætast til að skapa raunveruleg verðmæti fyrir fyrirtæki,“ segir stjórn Peel.