Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hefur skipað Árna Frey Stefánsson í embætti skrifstofustjóra samgangna hjá innviðaráðuneytinu. Greint er frá ráðningu hans í fréttatilkynningu á vef Stjórnarráðsins þar sem segir að Árni Freyr hafi verið valinn úr hópi margra hæfra umsækjenda að fengnum tillögum frá ráðgefandi hæfnisnefnd. Hann tekur við embættinu frá og með 1. júní næstkomandi.

„Árni Freyr er með BS gráðu í umhverfis- og byggingarverkfræði og M.Sc. gráðu í samgönguverkfræði. Árni Freyr hefur starfað á skrifstofu samgangna í innviðaráðuneytinu frá árinu 2018. Hann hefur yfirgripsmikla þekkingu og reynslu á málefnasviði skrifstofunnar og hefur verið verkefnisstjóri samgönguáætlunar sl. fimm ár. Hann hefur því umfangsmikla reynslu í stefnumótun á sviði samgöngumála en hefur auk þess verið virkur þátttakandi í mótun áætlana fyrir önnur svið ráðuneytisins,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Áður en Árni Freyr kom til starfa hjá ráðuneytinu starfaði hann hjá Verkfræðistofunni Mannviti hf. á árunum 2008-2018 sem ráðgjafi og verkefnisstjóri.  Þar kom hann að fjölbreyttum verkefnum m.a. a sviði samgöngumála.