Sigurður Oddsson hefur verið ráðinn til Aton sem hönnunarstjóri. Sigurður hefur síðustu ár starfað í New York en er nú á heimleið og bætist í framlínu hönnuða- og ráðgjafateymis Aton.

Sigurður mun m.a. stýra vörumerkjauppbyggingu, stefnumótun og hönnun fyrir fjölbreytta viðskiptavini Aton.

Sigurður er með yfir 16 ára reynslu hjá auglýsinga- og hönnunarstofum á Íslandi og erlendis. Hann hefur undanfarin ár starfað sem hönnunarstjóri hjá hönnunar- og mörkunarstofunni JKR New York en starfaði þar áður sem yfirhönnuður hjá Hugo & Marie, einnig í New York.

Sigurður starfaði síðast á Íslandi hjá Jónsson & Le´macks. Sjálfstætt hefur hann komið að fjölda verkefna fyrir fyrirtæki og listamenn víða um heim og fengið viðurkenningar fyrir m.a. mörkun, merkjahönnun, umbúðahönnun, leturhönnun, myndskreytingar, hönnun á bókarkápum og plötuumslögum.

„Vörumerki er nær alltaf dýrmætasta eign fyrirtækja. Vel heppnað sköpunarferli er innblásið af skilningi á sérstöðu og einstökum eiginleikum vörumerkisins, dregur þau fram og lyftir þeim og gefur þannig vörumerkinu skýra merkingu,“ segir Sigurður.

„Í tættum heimi þar sem vörumerki birtast á ótal ólíkum stöðum og keppa um athygli verður stöðugt mikilvægara að vörumerki skeri sig úr fjöldanum en sé alltaf þekkjanlegt. Þess vegna skiptir öllu að hafa skýra sérstöðu en um leið mikinn stöðugleika á ólíkum flötum birtinga .

Ég hef séð hvað þetta skiptir miklu máli, hversu mikil virðing er borin fyrir þessu hjá stórum erlendum fyrirtækjum og hvaða árangri hægt er að ná með því að trúa á virði vörumerkisins og leggja metnað í uppbyggingu þess. Þarna eru mikil tækifæri til staðar fyrir íslensk fyrirtæki. Aton hefur byggt á strategískri og heildrænni nálgun á hönnun og samskipti og er þess vegna augljóst val fyrir mig. Ég hlakka mikið til að koma heim, kynnast nýju fólki og byrja á nýjum verkefnum.”

Hjá JKR New York hefur Sigurður leitt verkefni fyrir mörg af stærstu fyrirtækjum heims en meðal þeirra sem telja má upp eru Manischewitz, Bud Light og Corona. Hjá Hugo & Marie vann hann m.a. að vörumerkjaþróun og hönnun fyrir Apple, Saint Laurent, Equinox og Atmos Magazine. Í sjálfstæðum verkefnum hefur hann m.a. hlotið verðlaun fyrir vörumerkjahönnun fyrir Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Body Vodka og Samfylkinguna. Einnig hefur hann unnið að myndskreytingum og listrænni stjórnun fyrir Adobe, The New Yorker og H&M.

„Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hversu mikill fengur það er að fá Sigurð í hópinn til okkar. Hann er meðal allra fremstu hönnuða landsins, og á heimsvísu, líkt og sést á verkum hans og þeim viðurkenningum sem hann hefur fengið. Fyrir okkur skiptir mestu máli að hann mun styrkja fjölbreytta sérþekkingu okkar og sérstöðu enn frekar. Sigurður deilir með okkur þeirri sannfæringu að góður skilningur á viðfangsefninu og markhópum leiði að betri hugmyndum og meiri sköpunarkrafti sem skilar áþreifanlegum og mælanlegum árangri. Að því stefnum við alltaf fyrir okkar viðskiptavini. Við hlökkum mikið til að vinna með honum að frábærum verkefnum.” segir Ingvar Sverrisson, framkvæmdastjóri Aton.