Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur skipað Sigurð H. Helgason í embætti forstjóra Sjúkratrygginga Íslands frá 1. febrúar næstkomandi. Hann tekur við stöðunni af Maríu Heimisdóttur sem sagði upp störfum í lok síðasta árs vegna óánægju um fjármögnun stofnunarinnar.

Í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins segir að skipunin sé gerð á grundvelli heimildar í 36. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Starfið var því ekki auglýst og Sigurður flytur úr embætti skrifstofustjóra í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Sigurður hefur stýrt skrifstofu stjórnunar og umbóta í fjármála- og efnahagsráðuneytinu frá árinu 2013 og jafnframt verið staðgengill ráðuneytisstjóra.

Sjúkratryggingar Íslands annast framkvæmd sjúkratrygginga og kaup á heilbrigðisþjónustu fyrir hönd ríkisins í samræmi við stefnu ráðherra á hverjum tíma. Eftirlit með gæðum og árangri keyptrar þjónustu er einnig á hendi stofnunarinnar, auk fleiri verkefna.

„Það er stórt og ábyrgðarmikið verkefni að stýra þessari stofnun. Á þessum tímamótum færi ég Maríu Heimisdóttur mínar bestu þakkir fyrir vel unnin störf og óska nýjum forstjóra Sigurði Helgasyni velfarnaðar í starfi,“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

Sigurður hefur áður gegnt embætti aðstoðarframkvæmdarstjóra Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn þar sem hann var yfirmaður fjármála og stjórnsýslu, starfi sérfræðings í umbótum í opinberum rekstri hjá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) í París og starfi sérfræðings í fjármálaráðuneytinu. Þá stýrði hann um árabil ráðgjafarfyrirtækinu Stjórnháttum sem veitti stjórnvöldum margháttaða ráðgjöf um umbætur og skipulagsbreytingar í opinberri starfsemi.

Sigurður hefur í tengslum við störf sín unnið að fjölþættum verkefnum á sviði heilbrigðismála. Meðal annars tók hann virkan þátt í undirbúningi breytinga sem leiddu til laga um sjúkratryggingar og stofnunar Sjúkratrygginga Íslands árið 2008. Þá situr hann í stjórn Nýs Landspítala ohf. sem annast uppbyggingu á nýjum innviðum Landspítala.

Sigurður er með meistaragráðu í stjórnsýslu frá Roskilde Universitet, með sérhæfingu í heilsuhagfræði og stjórnun heilbrigðisþjónustu.