Sigurjón Jóhannsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjármála hjá Nóa Síríus hf., en hann gekk upphaflega til liðs við fyrirtækið árið 2022 þegar hann tók við stöðu sérfræðings á sviði viðskiptagreininga.
Hann er með meistaragráðu í endurskoðun og reikningsskilum og einnig fjármálum frá Háskóla Íslands auk þess að hafa sótt skiptinám í Bandaríkjunum og Mexíkó.
Sigurjón hefur aflað sér víðtækrar reynslu með störfum sínum á vettvangi atvinnulífsins, svo sem hjá Festi hf., Iceland Seafood, í sjö ár á endurskoðunarsviði KPMG og nú undanfarin þrjú ár hjá Nóa Síríus.
Þá hefur Birna María Másdóttir verið ráðin í starf markaðsstjóra Nóa Síríus sem heyrir undir framkvæmdastjóra markaðsmála.
Birna María býr yfir yfirgripsmikilli reynslu frá auglýsingastofunni Brandenburg, þar sem hún starfaði sem viðskiptastjóri og starfaði náið með fyrirtækjum á borð við Nova, Krónuna og PLAY.
Þá hefur hún látið mikið til sín taka á sviði þáttagerðar í sjónvarpi, þar sem hún þróaði m.a. hugmyndina og skrifaði handrit að þáttunum GYM sem sýndir voru á Stöð 2. Einnig sá hún um dagskrárgerð og umsjón með þáttunum Bibba flýgur og Áttavillt sem báðir hlutu tilnefningu til Eddunnar árið 2021.
„Við erum afskaplega ánægð með að fá Sigurjón og Birnu Maríu til liðs við öflugt teymi Nóa Síríus sem hefur verið á mikilli vegferð umbreytinga í rekstri félagsins á undanförnum misserum. Reynsla Sigurjóns af uppbyggingu á gagnadrifnum nálgunum við fjármálastýringu og reynsla Birnu Maríu af vettvangi markaðsmála munu styrkja félagið til framtíðar. Það er mikils virði fyrir okkur að fá svona öflugan og reynslumikinn liðsauka,“ segir Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir, forstjóri Nóa Síríus hf.