Deloitte hefur stækkað sjálfbærniteymi sitt samhliða aukinni áherslu endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækisins á sjálfbærni og loftslagsmál, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Gunnar Sveinn Magnússon var ráðinn til Deloitte í apríl síðastliðnum sem meðeigandi félagsins og yfirmaður sjálfbærni- og loftslagsmála innan Deloitte á Íslandi og sem hluti af stjórnendateymi Deloitte á Norðurlöndum.

Í sjálfbærniteymi Deloitte eru nú, auk Gunnars Sveins, þau Dr. Rannveig Anna Guicharnaud, Margrét Helga Guðmundsdóttir, Hlynur Rafn Guðmundsson, Karen Sif Magnúsdóttir auk þess sem Hulda Þórhallsdóttir mun alfarið stýra innri sjálfbærnimálum Deloitte.

Rannveig Anna Guicharnaud mun starfa hjá Deloitte á sviði kolefnisverkefna og styðja við vegferð fyrirtækja og stofnana við að ná kolefnishlutleysi. Rannveig býr yfir reynslu á sviði umhverfis-, kolefnis- og sjálfbærnimála hjá alþjóðastofnun á vegum ESB og FAO, verkfræðistofu, háskólastofnunum og ríkisstofnunum auk þess að hafa rekið eigið ráðgjafarfyrirtæki. Hún er með doktorsgráðu í jarðvegsfræðum með áherslu á loftslagsbreytingar.

Margrét Helga Guðmundsdóttir kemur til Deloitte frá Umhverfisstofnun þar sem hún hafði m.a. umsjón með viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Margrét hefur þekkingu á núverandi og framtíðarreglugerðum um sjálfbærni og loftslagsmál (s.s. EU Taxonomy, SFRD og CSRD). Hún er með MA gráðu í umhverfisfræðum frá Háskóla Íslands (HÍ) auk þess sem hún er að ljúka MPA námi í opinberri stjórnsýslu með áherslu á Evrópurétt.

Hlynur Rafn Guðmundsson hefur undanfarið ár unnið að stofnun nýsköpunarfyrirtækis á sviði sjálfbærni með áherslu á minnkun á matarsóun. Hlynur er með M.Sc. gráðu í stjórnun nýsköpunar frá Háskólanum í Reykjavík (HR) og B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá HÍ.

Karen Sif Magnúsdóttir starfaði áður í áhættustýringu Íslandsbanka. Karen hefur sérhæft sig í mælingu á kolefnisspori lána- og eignasafna (skv. PCAF aðferðafræðinni), setningu vísindalegra loftslagsmarkmiða (e. SBTi) auk annarra sjálfbærniverkefna, s.s. skýrslugerð út frá viðmiðum um umhverfi, félagslega þætti, stjórnarhætti (UFS) og loftslagsáhættu (e. TCFD). Hún er með M.Sc. gráðu í iðnaðarstjórnun með áherslu á orku og umhverfi frá KTH the Royal Institute of Technology í Stokkhólmi og B.Sc. í iðnaðarverkfræði frá HÍ.

Hulda Þórhallsdóttir hefur starfað hjá Deloitte frá árinu 2018 og hefur undanfarin ár meðal annars stýrt innri sjálfbærnimálum fyrirtækisins og innleiðingu á sjálfbærnistefnu alþjóðafyrirtækisins, WorldClimate, ásamt því að aðstoða viðskiptavini Deloitte við ýmis sjálfbærnitengd verkefni. Hulda er með M.Sc. gráðu í stjórnun og stefnumótun og BA gráðu í félagsfræði frá HÍ.

„Það er gríðarlega mikill slagkraftur sem nýtist í sjálfbærnivegferð Deloitte með komu þeirra til okkar, enda mikið fagfólk á sínu sviði. Þau brenna fyrir málaflokknum og eru reynslumikil á sínum sviðum og tel ég okkur vera einstaklega lánsöm að hafa náð að byggja upp svo sterkt og gott teymi á svo skömmum tíma,“ segir Gunnar Sveinn. „Við erum nú þegar komin á fulla ferð við að styðja við sjálfbærnivegferð viðskiptavina Deloitte í góðri samvinnu við starfsfólk á öðrum sviðum Deloitte hér heima sem og á Norðurlöndum en markmið okkar er að samþætta málaflokkinn inn í alla starfsemi fyrirtækisins.“