Skarphéðinn Guðmundsson hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Sagafilm á Íslandi en hann tekur við starfinu af Þóri Tjörva Þórssyni. Hann mun hefja störf snemma í sumar.

Greint var frá því undir lok síðasta árs að Skarphéðinn hafi ákveðið að láta af störfum sem dagskrárstjóri sjónvarps RÚV en hann hafði gegnt því starfi í tólf ár. Áður var hann dagskrárstjóri Stöðvar 2 í sex ár.

Haft er eftir Skarphéðni í tilkynningu að það hafi heillað hann sífellt meira að koma enn frekar að framleiðslunni eftir að hafa um árabil tekið virkan og beinan þátt í íslenskri dagskrár- og kvikmyndagerð.

„Því stökk ég á tækifærið þegar mér bauðst að leggja þessari framsókn Sagafilm lið í samráði við stórhuga nýja eigendur hjá Skybound Entertainment sem hafa tileinkað sér nýja og afar spennandi nálgun á þróun, framleiðslu, sölu og dreifingu á sterkum sögum og afþreyingarefni þvert á form og miðla með ansi hreint eftirtektarverðum árangri svo ekki sé fastar að orðið kveðið,“ segir Skarphéðinn.

„Ég er afar spenntur fyrir því að að fá að leggja slíku frumkvöðlastarfi og nýsköpun lið. Um leið hlakka ég mikið til að vinna með öflugu og fádæma reynsluríku teymi Sagafilm lið við að styrkja stöðu fyrirtækisins enn frekar hér heima með vali, þróun og framleiðslu á sterkum, vönduðum og fjölbreyttum innlendum verkefnum og tækifærum sem hafa alla burði til að ná jafnt til íslenskra áhorfenda sem alþjóðlegra.“

Kjartan Þór Þórðarson, framkvæmdastjóri Sagafilm Nordic í Svíþjóð, segir afar ánægjulegt að fá Skarphéðinn til liðs við Sagafilm.

„Sú áratuga reynsla sem Skarphéðinn hefur í kvikmynda og sjónvarpsiðnaðinum mun nýtast okkur vel í áframhaldandi þróun félagsins bæði innanlands sem og erlendis,“ segir Kjartan.

Bandaríska afþreyingarfyrirtækið Skybound Entertainment og leikjafyrirtækið 5th Planet Games fjárfestu í Sagafilm árið 2023 en fjárfestingunni er ættlað að styrkja stöðu fyrirtækisins á evrópskum kvikmynda- og sjónvarpsmarkaði og efla getu þess til að framleiða hágæða efni fyrir áhorfendur um allan heim í fjölbreyttum miðlum og formum.

Náið samstarf með Sagafilm

Skarphéðinn lýsir því að hann hafi í fyrri störfum átt í náinni og afar gæfuríkri samvinnu við Sagafilm, sem sé elsta og afkastamesta framleiðslufyrirtæki landsins. Samstarfið spanni hartnær tvo áratugi og nái til fjölbreyttrar flóru gæðaefnis, allt frá leiknu sjónvarpsefni á borð við Stelpurnar, Pressu, Ástríði og Ráðherrann, skemmtiefni á við Idol-Stjörnuleit, X-factor, Spurningabombuna, Loga í beinni og Óskalög þjóðarinnar, og eins heimildaefni á borð við Out of Thin Air, Öldin hennar og Hvað höfum við gert?

„Í þeim störfum hef ég fengið tækifæri til að fylgjast með mjög svo spennandi þróun og breytingum á áherslum Sagafilm, frá því að vera öflugasta framleiðslufyrirtæki landsins - allt í senn á sviðið sjónvarps-, kvikmynda-, heimildamynda- og auglýsingaframleiðslu, viðburðarstjórnun og þjónustu við erlendi kvikmyndaframleiðslu - yfir í að gerast þar á ofan afar framsækið og nafntogað alþjóðlegt framleiðslufyrirtæki sem leiðir og tekur virkan þátt í framleiðslu á spennandi sjónvarpsseríum og kvikmyndum á Norðurlöndum, í Evrópu og vonandi víðar á komandi misserum,“ segir Skarphéðinn.

Í tilkynningu segir að Sagafilm hafi að undanförnu framleitt sjónvarpsseríur og kvikmyndir, þ.á.m. Ráðherrann 2 og Napóleónskjölin, en á næstu misserum stendur til að frumsýna ný verkefni sem Sagafilm og íslenskt kvikmyndagerðarfólk hafa þróað í samstarfi við norræn og evrópsk framleiðslufyrirtæki.

Meðal væntanlegra verkefna eru:

  • VAKA – sænsk-íslensk spennuþáttaröð, samframleiðsla Amazon MGM Studios, Unlimited Stories, Sagafilm og Skybound Entertainment fyrir Amazon Prime Video.
  • Everybody Loves Horses – samframleiðsla Sagafilm og Kaiho Republic fyrir YLE og RÚV.
  • Hildur – finnsk-íslensk glæpasería byggð á metsölubókum Sami Ramö um lögreglukonuna Hildi, sem gerist á Vestfjörðum. Serían er framleidd fyrir Símann og Nelonen í samvinnu við Sagafilm, Take Two Studios, IPR.VC og Cineflix Rights.
  • Hrólfur – ný íslensk gamanþáttasería fyrir Símann.