Kvika banki hefur gert nokkrar breytingar á skipulagi bankans. Breytingarnar eru gerðar í kjölfarið af sameiningarvinnu og mannabreytingum á síðastliðnu ári með það að markmiði að skýra línur og skerpa áherslur í starfseminni segir í fréttatilkynningu.
Helstu breytingar eru eftirfarandi:
- Lilja Jensen mun taka sæti í framkvæmdastjórn Kviku.
Lilja hefur starfað hjá Kviku, áður MP banka, frá árinu 2012 og sem yfirlögfræðingur bankans frá árinu 2015. Áður starfaði hún m.a. sem laganemi og fulltrúi hjá LOGOS lögmannsþjónustu frá árinu 2008. Lilja er með b.s. gráðu í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands og ML gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík.
- Íris Arna Jóhannsdóttir verður yfir skipulagsþróun samstæðu.
Hún mun hafa yfirumsjón með daglegum rekstri á skrifstofu forstjóra og sinna ýmsum málum fyrir dótturfélög bankans sem stjórnarformaður Kvika Securities í London og lögfræðingur Júpíters.
Íris Arna var yfirlögfræðingur Virðingar hf. frá árinu 2016 og fram að samruna Virðingar og Kviku. Á árunum 2012-2015 var hún yfirlögfræðingur H.F. Verðbréfa og þar á undan verkefnastjóri hjá LOGOS lögmannsþjónustu.
Íris Arna hefur einnig starfað á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins og í Frjálsa fjárfestingarbankanum Íris Arna er með kandídatspróf í lögfræði frá Háskóla Íslands og LL.M gráðu í banka- og fjármálalögfræði frá The London School of Economics and Political Science.
- Ólöf Jónsdóttir mun veita forstöðu stefnumótun og rekstrarstjórnun.
Hún mun leiða þróunar- og umbótaverkefni sem liggja þvert á deildir bankans og stýra rekstrarnefnd bankans. Ólöf starfaði hjá Auði Capital og síðar Virðingu frá árinu 2008 og fram að samruna Virðingar og Kviku, m.a. sem fjármálastjóri og framkvæmdastóri rekstrarsviðs og forstöðumaður áhættustýringar og upplýsingatæknisviðs.
Á árunum 2005-2008 vann Ólöf hjá Kaupþingi banka m.a. í rannsóknar og þróunardeild áhættustýringar, Global Risk Management deild bankans og sem starfsmaður Integration Committee. Ólöf er með B.Sc í Véla- og Iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc í Aðgerðarrannsóknum (Operational Research) frá The London School of Economics and Political Science.