Sölvi Davíðsson lögmaður hefur verið ráðinn forstöðumaður lögfræðideildar Festi, móðurfélags N1, Krónunnar og Elko. Greint er frá ráðningu hans í fréttatilkynningu.
Sölvi lauk meistaraprófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2009. Hann starfaði sem lögmaður hjá Lagastoð lögfræðiþjónustu ehf. til ársins 2017 en hóf þá sjálfstæðan rekstur. Sölvi var meðeigandi að Lagastoð frá árinu 2020 en söðlar nú um.
Hann hefur sérþekkingu á sviði félaga- og fjármunaréttar og hefur einkum veitt ráðgjöf til fyrirtækja og sveitarfélaga í störfum sínum auk þess að annast málflutningsstörf. Sölvi öðlaðist réttindi til að flytja mál fyrir héraðsdómstólunum árið 2010 og Landsrétti 2018.
„Við erum mjög ánægð með að fá Sölva til liðs við okkur til að veita forstöðu lögfræðideild félagsins. Reynsla hans mun nýtast okkur vel og auka þekkingu starfsmanna á þessu sviði. Um nýja deild er að ræða sem mun bæta þjónustuna sem Festi veitir rekstrarfélögum sínum; Bakkanum vöruhóteli, ELKO, Festi Fasteignum, Krónunni og N1,“ segir Magnús Kr. Ingason, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Festi.
„Það er ánægjulegt að hefja störf á þessum vettvangi með öflugu teymi. Þetta er spennandi vettvangur til að takast á við nýjar áskoranir eftir góðan tíma hjá Lagastoð. Hér er faglega að málum staðið og ég er bæði þakklátur og stoltur að fá tækifæri til að móta nýja deild,“ segir Sölvi.