Stefán Örn Stefánsson hefur gengið í hóp eigenda hjá lögmannsstofunni Rétti – Aðalsteinsson & Partners.

Stefán hefur starfað sem lögmaður hjá Rétti frá árinu 2019 og sérhæft sig í ráðgjöf sem tengist fyrirtækjarekstri, s.s. fjármögnunum, kaupum og sölum á fyrirtækjum og hlotið viðurkenningu frá erlenda matsfyrirtækinu Legal500 fyrir störf sín á því sviði.

Stefán útskrifaðist sem Mag. Jur. frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2018 og hlaut réttindi sem héraðsdómslögmaður árið 2020 auk þess sem hann lauk prófi í verðbréfaviðskiptum árið 2023. Áður en hann hóf störf hjá Rétti starfaði hann sem lögfræðingur hjá KPMG.

„Þekking, reynsla og útsjónarsemi Stefáns hefur nýst vel til úrlausnar flókinna viðfangsefna fyrir umbjóðendur Réttar. Það er mikill styrkur fyrir okkur að fá hann í eigendahópinn. Við bjóðum hann hjartanlega velkominn og hlökkum til áframhaldandi samstarfs,“ segir Sigurður Örn Hilmarsson, eigandi á Rétti.

Rætur Réttar má rekja til ársins 1969 þegar Ragnar Aðalsteinsson stofnaði lögmannsstofu sína.

„Allt frá stofnun hefur áhersla verið lögð á framgang réttarins með manngildishugsjón að leiðarljósi og veitir Réttur þannig fólki og félögum alhliða þjónustu í sókn og vörn réttinda sinna. Stofan aðstoðar bæði innlend og erlend fyrirtæki, einstaklinga, félagasamtök, og opinbera aðila.“