EpiEndo Pharmaceuticals hefur ráðið Stefán Pétursson sem fjármálastjóra félagsins. Stefán mun taka við stöðunni af Finni Friðriki Einarssyni sem mun áfram sinna stöðu rekstrarstjóra. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Stefán lét af störfum á síðasta ári sem fjármálastjóri Arion banka. Hann stýrði fjármálasviði Arion banka frá árinu 2010. Hannn hefur yfir 20 ára reynslu sem fjármálastjóri, bæði hjá Arion banka og þar áður hjá Landsvirkjun. Hann var í lykilhlutverki við skráningu og sölu Arion banka á hlutabréfamarkað á Íslandi og í Svíþjóð, að því er kemur fram í tilkynningu.
EpiEndo Pharmaceuticals er klínískt lyfjaþróunarfyrirtæki sem er að þróa næstu kynslóð meðferðarúrræða til meðhöndlunar á viðvarandi bólgusjúkdómum með því að takast á við undirliggjandi orsök þeirra.
Stefán Pétursson, fjármálastjóri EpiEndo:
„Það er fyrir mig mjög spennandi að ganga til liðs við hópinn hjá EpiEndo. Félagið er í farabroddi í þróun lyfja sem geta bætt lífsgæði milljóna einstaklinga á heimsvísu. EpiEndo hefur þegar náð umtalsverðum árangri í þróunarstarfinu og ég stefni að því að leggja mitt af mörkum til að félagið nái þeim mikilvægu áföngum sem framundan eru.“
Maria Bech, framkvæmdastjóri EpiEndo:
„Ég er ánægð með að fá Stefán sem fjármálastjóra EpiEndo. Hann kemur inn í stjórnendateymi félagsins með reynslu og þekkingu úr fjármála- og bankageiranum sem mun reynast félaginu dýrmætt nú þegar það heldur áfram að stækka og þroskast. Ég vil einnig nýta tækifærið og þakka Finni fyrir ómetanlegt starf við uppbyggingu félagsins síðustu ár sem fjármála- og rekstrarstjóri og ég hlakka til að vinna áfram með honum sem rekstrarstjóra félagsins.“