Stefanía Kolbrún Ásbjörnsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Greint er frá ráðningu hennar í fréttatilkynningu.

Stefanía er hagfræðingur með BS gráðu frá Háskóla Íslands og meistaragráðu frá Barcelona School of Economics. Hún hefur starfað sem hagfræðingur á efnahagssviði Samtaka atvinnulífsins frá árinu 2018 ásamt því að hafa sinnt kennslu við hagfræðideild Háskóla Íslands og viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík.

Hjá Samtökum atvinnulífsins sinnti Stefanía ýmiskonar greiningarvinnu, greinaskrifum og kynningum í tengslum við gerð kjarasamninga og efnahags- og atvinnulífsmál almennt. Stefanía hefur jafnframt sinnt fjölmörgum félagsstörfum og stóð meðal annars að stofnun Hagsmunafélags kvenna í hagfræði.

„Ég er full tilhlökkunar fyrir komandi þingvetri og að takast á við þau ýmsu spennandi og krefjandi verkefni sem fram undan eru, með öllu því góða fólki sem starfar fyrir þingflokk Sjálfstæðisflokksins, svo ekki sé minnst á þingmenn flokksins,“ segir Stefanía.

Stefanía tekur við starfinu af Tryggva Mássyni sem hefur verið ráðinn til þess að fara fyrir viðskiptaþróun hjá Klíníkinni, en staðan er ný innan félagsins. Auk þess að leiða viðskiptaþróun innan félagsins mun hann starfa náið með framkvæmdastjórn að stefnumótun og vexti Klíníkurinnar.

„Um leið og ég þakka Tryggva innilega fyrir sitt ómetanlega starf fyrir þingflokkinn og óska honum farsældar á spennandi vettvangi þá er ég gríðarlega stolt og ánægð með ráðningu Stefaníu. Ég veit að þekking hennar og hæfileikar munu koma að gagni við að forgangsraða áherslumálum inn í krefjandi þingvetur. Þannig getum við best nýtt krafta okkar í þágu mikilvægra stefnumála Sjálfstæðisflokksins samfélaginu til góðs. Það eru stór verkefni framundan og ég hlakka til að njóta liðsinnis Stefaníu í þeim,“ segir Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.