Steinunn Kristín Þórðardóttir hefur tekið sæti í stjórn hugbúnaðarfyrirtækisins Öldu. Hún er stofnandi og stjórnarformaður Acton Capital AS og stjórnarformaður Norsk-íslenska viðskiptaráðsins.

Þá situr Steinunn einnig í stjórn Arion banka og hefur starfað sem stjórnarmaður frá árinu 2017. Hún er með meistaragráðu í alþjóðlegri stjórnun og fjármálum frá Thunderbird í Bandaríkjunum og BA-gráðu í alþjóðaviðskiptum og stjórnmálafræði frá University of South Carolina í Bandaríkjunum.

„Ég hlakka til að að taka þátt í vegferð Öldu enda metnaðarfullt og vaxandi fyrirtæki, leitt áfram af framúrskarandi fólki. Lausnin er einstök á heimsmælikvarða og er að mæta mikilli þörf á markaðinum sem stórfyrirtæki víða um heim hafa verið að kalla eftir,” segir Steinunn Kristín Þórðardóttir.

Í stjórn Öldu sitja auk Steinunnar, Ásthildur Otharsdóttir stjórnarformaður og Jóhann Þorvaldur Bergþórsson.

Alda kynnti hugbúnaðarlausn sína nýverið og einblínir fyrirtækið fyrst á Evrópumarkað en fyrirhugað er að setja lausnina á markað í Bandaríkjunum á næsta ári. Lausninni er ætlað að vinna gegn eitraðri vinnustaðamenningu, tryggja inngildingu og hjálpa vinnustöðum að ná hámarksárangri með fjölbreyttum teymum.

„Það er mikill fengur að fá reynslumikla konu eins og Steinunni í stjórn Öldu. Hún hefur dýrmæta þekkingu á alþjóðamarkaði og brennur auk þess fyrir málefni jafnréttis og inngildingar á vinnumarkaði, rétt eins og við. Þannig ríma áherslur og gildi hennar vel við Öldu,“ segir Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé, stofnandi og forstjóri Öldu.