Steinunn Hlíf Sigurðardóttir mun taka sæti í stjórn Nova í stað Magnúsar Árnasonar sem ákvað að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Aðeins fimm framboð bárust fyrir framboðsfrest og því verður sjálfkjörið í stjórnina á aðalfundi Nova á morgun, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Steinunn starfaði sem framkvæmdastjóri upplifunar viðskiptavina hjá Arion banka frá 2021-2024 og stýrði þar markaðsmálum, stafrænum lausnum og gagnadrifnum breytingum. Þá starfaði hún sem framkvæmdastjóri hjá Verði tryggingum frá 2008-2021.
„Vegferð Varðar trygginga á margt sameiginlegt með vexti og þróun Nova þar sem félagið fór úr því að vera lítill aðili á markaði yfir í að verða verðugur aðili í samkeppni. Steinunn tók þátt í að leiða þessa umbreytingu með stefnumótandi sýn og sterkri áherslu á þjónustu, stafrænar lausnir og markaðsdrifinn vöxt,“ segir í skýrslu tilnefningarnefndar Nova.
„Það er mat tilnefningarnefndar að sú reynsla sé afar dýrmæt fyrir Nova þar sem félagið heldur áfram að þróa sig og styrkja stöðu sína í síbreytilegu markaðsumhverfi.“
Nefndin segir að Nova sé sterkt markaðsdrifið fyrirtæki og með brotthvarfi stjórnarmanns sem hafði mikla sérþekkingu á markaðsmálum og stafrænni þróun sé mikilvægt að slík þekking og reynsla haldist í stjórn. Steinunn komi með þessa reynslu og þekkingu að borðinu.
Steinunn hefur einnig reynslu af stjórnarstörfum og situr nú í stjórn Kviku eignastýringar. Hún er með B.A. gráðu í viðskiptafræði frá Flagler College og próf í verðbréfamiðlun.