Steinunn Linda Jónsdóttir hefur verið ráðin rekstrarstjóri hjá Verði og mun hefja störf 15. nóvember næstkomandi. Um er að ræða nýja stöðu og mun Steinunn leiða rekstrarsvið Varðar en undir það svið falla fjölbreytt verkefni á borð við rekstur, sjálfbærni og gæðamál. Einnig mun rekstrarstjóri fylgja eftir stefnumótun og umbótaverkefnum.

„Ég er himinlifandi að fá að taka þátt í að móta og sinna þessu nýja hlutverki hjá Verði í samvinnu við það frábæra fólk sem þar starfar. Vörður og Arion eru á spennandi sameiginlegri vegferð sem býður upp á ótal tækifæri og ég hlakka til að leggja þeirri vegferð lið,“ segir Steinunn Linda.

Steinunn kemur til Varðar frá Marel þar sem hún hefur starfað frá árinu 2011. Þar gegndi hún starfi rekstrarstjóra fiskiðnaðarsviðs frá árinu 2018. Áður starfaði Steinunn meðal annars sem verkefnastjóri hjá Arion banka. Steinunn er með MPM-gráðu og B.S.-gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands.

„Steinunn er mikill reynslubolti þegar kemur að rekstrarmálum og það er frábært að fá hana til liðs við okkur. Vörður hefur verið að styrkjast og vaxa undanfarin ár og fram undan eru áframhaldandi tímar uppbyggingar og framþróunar,“ segir Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, forstjóri Varðar.