Björn Gíslason og Matthías Rögnvaldsson hafa skipt um stóla hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Stefnu ehf. Björn, sem hefur verið framkvæmdastjóri síðastliðin fimm ár, tekur við sem stjórnarformaður félagsins. Matthías verður á ný framkvæmdastjóri en hann gegndi því hlutverki um árabil.

Ný hlutverk boða ekki frekari breytingar í rekstrinum, að því er segir í fréttatilkynningu. Þá boðar Stefna nýjungar í þjónustu og vöruframboði sem kynntar verða í september.

„Ég er spenntur fyrir nýju hlutverki og tel að þetta sé gott skref fyrir Stefnu sem og mig sjálfan. Síðustu fimm ár hafa verið góður tími þar sem starfsfólk félagsins hefur náð frábærum árangri og við erum hvergi nærri hætt. Við Matthías og lykilstjórnendur höfum leitt vinnu við nýjungar í rekstrinum sem verða kynntar á næstu vikum,“ segir Björn Gíslason.

Matthías Rögnvaldsson, sem tekur við stöðu framkvæmdastjóra, þekkir Stefnu afar vel, enda stofnandi félagsins. Á síðustu árum hefur hann starfað sem starfandi stjórnarformaður Stefnu, og unnið náið með Birni og öðrum lykilstjórnendum að uppbyggingu félagsins.

„Það er mikill heiður taka við keflinu af Birni. Hann hefur skilað frábæru starfi við uppbyggingu fyrirtækisins undanfarin ár og ég hlakka til að vinna náið með honum og stjórninni að framtíðarsýn Stefnu. Það eru miklir möguleikar framundan og ég er spenntur að takast á við nýjar áskoranir,“ segir Matthías.

Stefna ehf. sérhæfir sig í hönnun og forritun sérlausna, þróun kerfa og stafrænum lausnum sem styðja við rekstur fyrirtækja og stofnana. Stefna þjónustar um 600 viðskiptavini um allt land, þar á meðal mörg af stærstu fyrirtækjum og stofnunum landsins.

Fyrirtækið var stofnað árið 2003 á Akureyri og er í dag með starfsstöðvar á höfuðborgarsvæðinu og í Svíþjóð.