Júlíus Steinn Kristjánsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri mannauðs hjá Benchmark Genetics og tekur jafnframt sæti í framkvæmdastjórn félagsins. Hann hefur starfað hjá félaginu í þrjú ár sem mannauðsstjóri yfir Íslandi.
Benchmark Genetics starfar í Víetnam, Bretlandi, Noregi, Íslandi, Bandaríkjunum, Chile og Kólumbíu og mun Júlíus leiða mannauðsmál félagsins í öllum þeim löndum.
„Ég er þakklátur fyrir traustið sem mér er sýnt og fullur tilhlökkunar til að leiða mannauðsmál fyrirtækisins í vegferð sinni til áframhaldandi vaxtar og stækkunar á heimsvísu,“ segir Júlíus Steinn.
Júlíus er með B.A. gráðu í sálfræði og M.Sc. gráðu í mannauðsstjórnun og er með mikla reynslu og þekkingu á sviði mannauðsstjórnunar, leiðtogafræða og jafnréttismála, bæði hjá íslenskum og alþjóðlegum fyrirtækjum.
„Júlíus hefur sýnt framúrskarandi leiðtogahæfileika og dýrmæta innsýn í mannauðsmál í störfum sínum hjá okkur. Það er frábært að fá hann í þetta hlutverk og að hann leiði mannauðsmál Benchmark Genetics á þessum spennandi tímum,“ segir Geir Olav Melingen, forstjóri Benchmark Genetics.