Hjörtur Pálmi Pálsson hefur gengið til liðs við Defend Iceland og mun hann stýra uppbyggingu samfélags netöryggissérfræðinga fyrirtækisins auk þess að leiða greiningu og úrvinnslu þeirra öryggisveikleika sem finnast hjá viðskiptavinum Defend Iceland. Greint er frá ráðningu hans í fréttatilkynningu.
Hjörtur er með víðtæka reynslu úr heimi netöryggis og hefur stýrt fjölbreyttum verkefnum hjá stórum alþjóðlegum fyrirtækjum, meðal annars í Danmörku, Svíþjóð, Þýskalandi og Kína. Hann starfaði síðast hjá Truesec í Danmörku þar sem hann sérhæfði sig í árásarprófunum (penetration testing og offensive security), og framkvæmdi meðal annars umfangsmiklar innbrotsprófanir og tæknilegar úttektir öryggisuppsetninga.
Þar áður var Hjörtur öryggisráðgjafi hjá VENZO Cybersecurity og stýrði verkefnum tengdum atvikastjórnun vegna netinnbrota, ógnaveiðum (threat hunting) og innbrotsprófunum. Þá leiddi hann einnig þjálfun öryggisteyma viðskiptavina í ýmsum öryggisferlum.
Hjörtur er með BSc gráðu í Cybersecurity frá Noroff University í Noregi og hefur haldið fyrirlestra um netöryggi í ýmsum háskólum á norðurlöndunum. Hann hefur verið virkur í netöryggissamfélaginu á Íslandi, er stjórnarmaður hjá BSides Reykjavík og hefur starfað sem forritunarkennari hjá NTV frá 2019, auk þess að taka þátt í ýmsum keppnum á sviði netöryggis.
Theódór Ragnar Gíslason, stofnandi Defend Iceland og framkvæmdastjóri:
„Það er mikill akkur í því að fá Hjört til liðs við okkur hjá Defend Iceland. Hann hefur fjölbreytta reynslu og verðmæta þekkingu sem mun skipta miklu við uppbyggingu öflugs samfélags netöryggissérfræðinga fyrirtæksins. Þá mun víðtæk reynsla Hjartar efla og hraða enn frekar tæknilegri úrvinnslu þeirra netöryggisveikleika sem finnast hjá viðskiptavinum okkar. Með stórauknum fjölda netárása á Íslandi skiptir slík gæðastjórnun miklu máli og ég er sannfærður um að Hjörtur verður lykilmaður í að styrkja netöryggisvarnir fyrirtækja og stofnana á Íslandi.“
Hjörtur Pálmi Pálsson, netöryggis- og samfélagsstjóri hjá Defend Iceland:
„Ég er gríðarlega spenntur að vera kominn til liðs við Defend Iceland og hlakka til að vinna með frábærum hópi öryggissérfræðinga við að efla netöryggi íslensks samfélags. Með sameinuðum kröftum munum við skapa öruggara stafrænt umhverfi og þjálfa nýja hæfileika. Það er mér mikil ánægja að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni og ég hlakka til að leggja mitt af mörkum til að láta sýn Defend Iceland verða að veruleika.“