Ingveldur Ásta Björnsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptavina hjá Reitum hefur óskað eftir lausn frá störfum en hún hefur starfað hjá Reitum síðan 2023. Við starfinu tekur Svana Huld Linnet og mun hún hefja störf nú í apríl hjá félaginu.
Svana mun bera ábyrgð á viðskiptasamböndum félagsins og leiða viðskiptaþróun, þjónustu, upplifun og fleiri þætti sem falla undir sviðið.
Hún starfaði áður sem forstöðumaður markaðsviðskipta hjá Arion banka frá árinu 2022 en áður var hún forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Landsbankans frá árinu 2019. Svana Huld starfaði í fyrirtækjaráðgjöf Arion banka frá árinu 2011.
Svana hefur einnig leitt fjölda stórra verkefna á fjármálamarkaði á undanförnum 14 árum m.a. við kaup og sölu fyrirtækja, skráningum félaga á markað og endurfjármögnun. Hún starfaði þar áður hjá Exista, Kauphöllinni og sem verðbréfamiðlari hjá Búnaðarbankanum á árunum 1997-2001.
Svana Huld er viðskiptafræðingur að mennt og hefur auk þess lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.
„Ég býð Svönu Huld hjartanlega velkomna til liðs við Reiti. Reynsla hennar mun nýtast vel í áframhaldandi vexti félagsins þar sem við leggjum rækt við stóran og breiðan viðskiptavinahóp félagsins sem telur yfir 500 fyrirtæki í ólíkum geirum,“ segir Guðni Aðalsteinsson, forstjóri Reita.