Sveindís Guðmundsdóttir hefur tekið við stöðu verkefnastjóra hjá Sahara. Hún mun stýra og bera ábyrgð á viðskiptasamböndum ásamt því að veita ráðgjöf varðandi lykilþætti í vöruframboði fyrirtækisins.

Hún er með BS-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og hefur undanfarin ár starfað sem viðskiptastjóri hjá Hvíta húsinu þar sem hún stýrði teymi hönnuða og textasmiða í verkefnum fyrir Icelandair á innlendum og erlendum mörkuðum.

„Ég er virkilega spennt að vera gengin til liðs við Sahara og hlakka til að vinna með því öfluga teymi að þeim skemmtilegu og krefjandi verkefnum sem fram undan eru,“ segir Sveindís.

Samhliða starfi sínu hjá Hvíta húsinu hefur Sveindís m.a. tekið að sér verkefni sem tengjast kosningum. Hún var hluti af markaðsteymi Höllu Hrundar Logadóttur forsetaframbjóðanda þar sem hún kom að mótun stefnu og raddblæjar fyrir samfélagsmiðla, textavinnu og auglýsingagerð.

„Við erum virkilega ánægð með að fá Sveindísi til starfa hjá Sahara. Sveindís hefur öðlast víðtæka þekkingu í fyrri störfum sem á eftir að nýtast viðskiptavinum okkar vel. Það eru spennandi tímar fram undan hjá Sahara og Sveindís á eftir að reynast sterk viðbót við það öfluga teymi sem nú þegar er innan fyrirtækisins,” segir Andreas Aðalsteinsson, yfirmaður stafrænnar deildar Sahara.