Swapp Agency, sem býður fyrirtækjum einfalda lausn við að setja upp starfsfólk í fjarvinnu í öðrum löndum, hefur ráðið Svein Bjarka Brynjarsson sem tæknistjóra. Sveinn hefur nú þegar hafið störf. Greint er frá ráðningu hans í fréttatilkynningu.

Sveinn mun hafa yfirumsjón með þróun stafrænna lausna og tækniumhverfi Swapp Agency. Sveinn starfaði áður sem forritari hjá Origo og kom þar að ýmsum verkefnum, til að mynda hönnun og forritun á sýnatöku- og bólusetningarkerfi fyrir íslenska heilbrigðiskerfið í Covid-19 faraldrinum. Þar áður starfaði hann við forritun hjá Advania. Sveinn er með B.S. gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands.

„Ég er spenntur og þakklátur fyrir að fá tækifæri til að leiða fyrirtækið inn í þá mikilvægu stafrænu vegferð sem er framundan. Við ætlum okkur stóra hluti á Norðurlöndunum og erum byrjuð á þróun hugbúnaðar sem mun efla starfsemi okkar. Einnig munum við einfalda og sjálfvirknivæða alla ferla innanhús sem mun gera okkur kleift að stækka hratt á næstu árum,“ er haft eftir Sveini Bjarka.

„Við hjá Swapp Agency erum gríðarlega spennt fyrir komu Sveins sem tæknistjóra. Þetta eru kaflaskil fyrir fyrirtækið og nú hefst sú vegferð sem hefur verið í undirbúningi síðustu misseri. Swapp Agency hefur náð fótfestu á erlendum mörkuðum, er að keppa við alþjóðleg fyrirtæki og við sjáum tækifæri á að stimpla okkur enn frekar inn með Svein í fararbroddi sem tæknistjóra,“ segir Davíð Rafn Kristjánsson, annar stofnanda og framkvæmdastjóri Swapp Agency.

Um Swapp Agency

Swapp Agency gerir samninga við vinnuveitendur um að borga starfsfólki sem er í fjarvinnu í öðru landi laun. Þá greiðir félagið skatta og launatengd gjöld í því landi sem starfsmaðurinn starfar í. Með þessu verður starfsmaðurinn launþegi á einfaldan hátt í því landi sem hann starfar og nýtur allra réttinda launfólks á vinnumarkaði. Margir Íslendingar flytjast árlega erlendis og með aðstoð Swapp Agency geta fyrirtæki haldið lykilstarfsmönnum í starfi á einfaldan, hagkvæman og löglegan hátt.