Íslenski vísissjóðurinn Crowberry Capital hefur ráðið Svenju Harms, stærðfræðing og gagnasérfræðing, til starfa. Hún starfaði hjá sjóðnum á árunum 2022-2023 og hefur einnig starfað hjá Lucinity, einu af fyrirtækjunum í eignasafninu.

Svenja ólst upp í Norður-Þýskalandi og er með B.Sc.-gráðu í stærðfræði frá Technical University í Braunschweig og masters-gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands.

Hún er í stjórn fjölskyldufyrirtækis síns í Þýskalandi með 16 starfsmenn.

Crowberry rekur tvo sérhæfða framtakssjóði með samtals 17 milljarða króna í áskriftarloforð og fjárfestir í nýsköpunarfyrirtækjum á öllum Norðurlöndunum. Bakhjarlar sjóðsins eru íslenskir lífeyrissjóðir og einkafjárfestar ásamt European Investment Fund og EIFO.