Linda Kristinsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður lánastýringar einstaklingssviðs Íslandsbanka og Harpa Baldursdóttir hefur sömuleiðis tekið við starfi forstöðumanns fjármála og reksturs á Einstaklingssviði bankans.

Í tilkynningu segir að breytingarnar sé hluti af þjónustuvegferð einstaklingssviðs bankans í tengslum við upplifun og þjónustu til viðskiptavina.

Linda er viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Bifröst og með meistaragráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands. Hún hefur starfað hjá Íslandsbanka frá árinu 2004 og hefur víðtæka reynslu í útlánamálum einstaklinga og hefur stýrt útlánaeiningum innan bankans undanfarin ár.

Harpa er með B.Sc.-gráðu í fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í Mathematical Modelling frá Danmarks Tekniske Universitet (DTU).

Hún hefur starfað hjá Íslandsbanka frá árinu 2021, fyrst sem vörueigandi útlána og síðar sem verkefnastjóri á einstaklingssviði. Áður starfaði hún sem ráðgjafi hjá Accenture í Danmörku og hjá Danske Bank í sjálfvirknivæðingu útlána til fyrirtækja.