Tveir nýir starfsmenn hófu nýverið störf hjá Datera, sem sérhæfir sig í ráðgjöf í gagnadrifinni markaðssetningu og birtingum. Tanja Rós Ingadóttir er nýr birtingaráðgjafi fyrir innlenda miðla og Sigurður Guðmundsson verður sérfræðingur í stafrænni markaðssetningu.

Sigurður kemur til Datera frá ferðaþjónustufyrirtækinu Hotsheep en þar áður starfaði hann hjá Birtingahúsinu sem stafrænn markaðssérfræðingur. Hjá Datera mun Sigurður sinna starfi sérfræðings í stafrænni markaðssetningu.

Tanja Rós kemur til Datera frá Sýn þar sem hún starfaði sem viðskiptastjóri, áður starfaði Tanja m.a. við birtingaráðgjöf hjá auglýsingastofunni Hér & Nú. Tanja mun sinna birtingaráðgjöf fyrir innlenda miðla hjá Datera.

„Sigurður og Tanja eru virkilega góð viðbót við okkar frábæra teymi. Tanja þekkir birtingaumhverfið hér heima virkilega vel og mun styrkja birtingateymi Datera til muna á meðan Sigurður kemur inn í hóp sérfræðinga okkar með reynslu úr ferðaþjónustu og stafrænni markaðssetningu. Þetta er frábær liðsstyrkur fyrir Datera í þeirri sókn og vexti sem við erum í,“ segir Hjalti Már Einarsson, framkvæmdastjóri Datera.