Nýlega urðu breytingar í stjórn Carbfix með tilkomu Martin Neubert sem kemur í stað Tómasar Más Sigurðssonar, forstjóra HS Orku, sem víkur úr stjórn.

Martin Neubert er meðeigandi og yfir fjárfestingum hjá Copenhagen Infrastructure Partners (CIP) í Kaupmannahöfn og ber þar ábyrgð á fjárfestingastefnu samstæðunnar.

„Yfirgripsmikil reynsla hans úr orku- og fjármálageirunum mun styðja við frekari uppbyggingu og þróun Carbfix í samræmi við stefnu félagins,“ segir í tilkynningu Carbfix.

Martin hefur starfað í yfir 20 ár í orkuiðnaðinum, sérhæft sig í einkafjárfestingum (private equity) og samrunum fyrirtækja. Áður en hann hóf störf hjá CIP árið 2023 gegndi Martin ýmsum stjórnendastöðum hjá Ørsted, meðal annars sem aðstoðarforstjóri og framkvæmdastjóri viðskiptasviðs. Þar áður var hann forstjóri Offshore Wind-hluta Ørsted.

„Við erum ákaflega stolt af því að fá Martin til liðs við stjórn Carbfix. Reynsla hans úr orkugeiranum og sterkur bakgrunnur í viðskiptaþróun- og fjármálageirunum mun reynast okkur afar mikilvæg við áframhaldandi markaðssókn Carbfix á heimsvísu í kolefnisföngun og kolefnisbindingu,” segir Nana Bule stjórnarformaður Carbfix.

„Ég er mjög ánægður með að taka sæti í stjórn félagsins og hlakka til að vera hluti af áframhaldandi þróun Carbfix. Kolefnisföngun og binding er í lykilstöðu til að hafa veigamikil áhrif í vegferðinni að orkuskiptum á heimsvísu og ég hlakka til að leggja mitt af mörkum til þess að stækka, þróa og gera Carbfix leiðandi í föngun og bindingu kolefnis,“ er haft eftir Martin Neubert.