Thelma Christel Kristjánsdóttir hefur verið ráðin sem lögmaður hjá lögmannsstofunni BBA Fjeldco. Thelma starfaði áður í tækni-, hugverka- og persónuverndarteymi LEX lögmannsstofu þar sem hún veitti m.a. ráðgjöf á sviði persónuverndar og tækniréttar til innlendra og alþjóðlegra fyrirtækja. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Ráðningin er sögð munu efla tækni- og hugverka- og persónuverndarteymi lögmannsstofunnar á sviði persónuverndar, gervigreindar og hugverkaréttar en eftirspurn eftir slíkri þjónustu fari sífellt vaxandi.

Thelma er menntaður lögfræðingur frá lagadeild Háskóla Íslands og lauk nýverið LL.M gráðu í tækni- og hugverkarétti frá UC Berkeley. Í námi sínu í UC Berkeley einbeitti Thelma sér að rannsóknum á sviði gervigreindar, tölvuleikja, netöryggis, hugverkaréttinda og persónuverndar að því er fram kemur.

Thelma sinnir stundakennslu við lagadeild Háskóla Íslands og mun einnig sinna stundakennslu við Háskólann á Bifröst á næsta ári. Þá situr hún í ráðgjafarnefnd Bonterms, nýsköpunarfyrirtækis í San Francisco, sem vinnur að því að útbúa staðlaða samningsskilmála fyrir fyrirtæki.