Þóra Gréta Þórisdóttir mun taka við starfi Lasse Ruud-Hansen sem forstjóri Nóa Síríusar um mánaðamótin.

Lasse hefur sinnt starfinu frá árinu 2021 en mun hverfa til annarra starfa hjá Orkla-samstæðunni. Þóra hefur starfað sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs fyrirtækisins en verður nú starfandi forstjóri.

„Þóra býr yfir langri reynslu úr matvælaiðnaði og þekkir okkar grein vel, bæði á heimamarkaði og á alþjóðavísu. Ég ber fullt traust til hennar að leiða fyrirtækið fram á við. Þróun og árangur Nóa Síríusar hefur verið afar góður frá kaupum Orkla í júní 2021 og fyrirtækið hefur að okkar mati burði til að halda áfram að vaxa. Við höfum miklar væntingar til Nóa Síríusar sem býr yfir framúrskarandi mannauði og teljum við mikið búa í fyrirtækinu og fjölmörgum sterkum vörumerkjum þess,“ segir Rolf Arnljot Strøm, stjórnarformaður Nóa Síríusar.

„Ég þakka stjórninni fyrir það traust sem mér er sýnt til að taka við þessu nýja hlutverki. Ég hlakka til að halda áfram þeirri flottu vegferð sem við höfum verið á að framleiða vörur sem eru í uppáhaldi hjá Íslendingum,“ segir Þóra Gréta Þórisdóttir, starfandi forstjóri Nóa Síríusar.