Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur skipað Þórdísi Jónu Sigurðardóttur forstjóra Menntamálastofnunar til fimm ára og hefur hún þegar hafið störf. Í tilkynningu ráðuneytisins segir að Þórdís muni stýra og vinna að uppbyggingu nýrrar stofnunar sem koma mun í stað Menntamálastofnunar.
„Hlutverk nýrrar stofnunar er að tryggja gæði menntunar og aðgengi allra nemenda, foreldra og starfsfólks skóla að samþættri, heildstæðri skólaþjónustu á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.“
Fram kemur að Þórdís Jóna hafi verið metin hæfust úr hópi fjölda umsækjenda að fenginni umsögn frá ráðgefandi hæfninefnd. Hún starfaði sem framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar árin 2016-2021 og var þar áður framkvæmdastjóri hjá Capacent í þrjú ár. Hún er einnig stofnandi ráðgjafafyrirtækisins Manifesto.
Þórdís Jóna er með B.A.-próf í stjórnmálafræði og M.A.-próf í félagsfræði frá Háskóla Íslands og MBA-próf frá Vlerick Business School. Þá hefur hún einnig lokið leiðtoganámi og námi í innleiðingu stefnumótunar frá Harvard Business School. Þórdís Jóna hefur komið að uppbyggingu MBA-náms og stjórnendaskóla Háskólans í Reykjavík.
Þórdís Jóna bauð sig fram til oddvita Viðreisnar í Reykjavíkurborg fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar en laut í lægra haldi fyrir Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur.