Þórhildur Þorkelsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri ráðgjafa- og samskiptafyrirtækisins Brú Strategy og hönnunarstofunnar Brú Stúdíó. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Undanfarin tvö ár hefur Þórhildur starfað sem kynningarstjóri BHM þar sem hún hefur leitt fjölmiðlasamskipti og almannatengsl, endurmörkun bandalagsins og stefnumótun í kynningarmálum.
Þar áður starfaði Þórhildur sem vaktstjóri og fréttamaður á fréttastofu RÚV, Stöð 2 og Vísi í áratug. Þá hefur hún sinnt þáttastjórnun og fjölbreyttri dagskrárgerð í sjónvarpi og útvarpi auk þess að halda úti vinsælu hlaðvarpi.
Þórhildur hlaut blaðamannaverðlaun ársins 2020. Hún er fjölmiðlafræðingur að mennt og hefur kennt samskipti og framkomu í fjölmiðlum, bæði á háskólastigi og á námskeiðum.
Brú Strategy var stofnað árið 2021 með það að leiðarljósi að brúa bilið milli stefnumótunar og markaðsmála. Fyrirtækið sérhæfir sig í stefnumótun, viðskiptaþróun, árangursdrifnum markaðsmálum og áunninni umfjöllun fyrir fyrirtæki í sókn bæði hér á landi og erlendis. Brú Stúdíó sérhæfir sig í hönnun og skapandi útfærslu á markaðsefni. Brú er í samstarfi við Golin Group, stórt samskiptafyrirtæki með starfsemi um allan heim.
Aðaleigendur Brú eru Atli Sveinsson, Halldór Harðarson og Darri Atlason.
Brú hefur vaxið hratt á stuttum tíma og unnið með breiðum hópi viðskiptavina, allt frá nýsköpunarfyrirtækjum yfir í stór og rótgróin fyrirtæki sem skráð eru á markað.
„Það er gríðarmikill fengur að fá Þórhildi til liðs við okkur. Brú hefur vaxið hratt á stuttum tíma og unnið með breiðum hópi viðskiptavina, allt frá nýsköpunarfyrirtækjum yfir í stór og rótgróin fyrirtæki sem skráð eru á markað. Fram undan eru markviss sóknarfæri þar sem við munum nýta okkar sérþekkingu á sviði hönnunar, almannatengsla og auglýsingagerðar auk þess að setja aukið púður í víðtæk ráðgjafarverkefni bæði hér á landi og erlendis. Þórhildur kemur inn með verðmæta reynslu og sérþekkingu á fjölmiðlasamskiptum og ráðning hennar er liður í að styrkja enn frekar þjónustu við okkar viðskiptavini. Hún mun leiða fyrirtækið inn í nýja og spennandi tíma,“ segir Halldór Harðarson, einn eigenda Brú Strategy, í tilkynningu.